Back to All Events

Ghost Choir

  • Mengi 2 Óðinsgata 101, Reykjavík Iceland (map)

Hljómsveitina Ghost Choir skipa þaulreyndir íslenskir tónlistarmenn með margvíslega músíkreynslu og þeir koma úr öllum áttum tónlistarheimsins: Neðanjarðar hip hopi, nútímajassi, fönki og allan skalann til rokks og popptónlistar. Tónlistarmennirnir eru þeir Hálfdán Árnason (Himbrimi, Legend, Horrible Youth) á bassa, Magnús Trygvason Eliassen (ADHD, Amiina, Moses Hightower) á trommum, Hannes Helgason (Samúel Jón Samúelsson Big Band) og Jóhannes Birgir Pálmason (Epic Rain, Hvörf) á hljómborð og rafhljóðfæri.

Húsið opnar 19:30 | Miðaverð 2.500 kr

Ghost Choir varð til þegar Jóhannes Birgir Pálmason hóaði til sín hinum tónlistarmönnunum árið 2018. Hugmyndin hjá honum var að sameina krafta músíkanta með sem fjölbreyttasta reynslu og uppruna og efna þannig til óvissuferða í tilraunamúsík. Allt frá upphafi var lögð áhersla á að skapa sterka félagskennd í hljómsveitinni, andrúmsloft þar sem ríkti gagnkvæm virðing fyrir listrænum skoðunum og persónuleika hvers og eins. Jóhannes stefndi að þess konar bræðralagi og vonaðist til að rétt samsetning tónlistarmanna og skipulag á hinni listrænu sköpun gæti leitt til einhverrar nýlundu. Hljómsveitin gaf út fyrstu plötuna árið 2020. Platan bar heiti hljómsveitarinnar og var tilnefnd til Íslensku tónlistarverðlaunanna það sama ár. Önnur platan, Cosmic Cedar, var gefin út í febrúar 2023.

Ghost Choir leikur frumsamið tónverk við nafntogaða költmynd, Skelin og klerkurinn (La Coquille et le Clergyman), sem Germaine Dulac leikstýrði árið 1928. Antonin Artaud, einn forystumanna í framúrstefnuhreyfingunni í Evrópu samdi handritið. Hann var um tíma tengdur súrrealistahreyfingunni í Frakklandi en var síðar gerður brottrækur þaðan.

Efni myndarinnar eru illdeilur klerks nokkurs og hermanns og eru þar á táknrænan hátt skoðuð áhrif samsömunar og valdboða á samfélagið.

Jóhannes Pálmason, Hálfdán Árnason og Hannes Helgason fluttu verkið á listahátíðinni Les Boréales í Frakklandi í nóvember síðastliðnum.

Myndin er einhver fyrsta súrrealíska kvikmyndin og áhorfendur þess tíma áttuðu sig illa á henni. Misklíð meðal frammámanna súrrealista varð til þess að á frumsýningunni gerðu rithöfundarnir André Breton og Louis Aragon, einhverjir helstu forvígismenn súrrealisma, hróp að henni.

Í Wikipediu segir að frægt sé að breska kvikmyndaeftirlitið hafi komist að þeirri niðurstöðu að myndin væri afar torskilin og því nánast merkingarlaus. Ef einhver merking væri í henni þá væri hún vafalaust óboðleg.